Þórhallur Dan Jóhannsson, fyrrum knattspyrnumaður og þjálfari, segir að leikmenn íslenska karlalandsliðsins verði að vanda hvað þeir segja út á við vilji þeir fá fólkið í landinu á bakvið sig.
Þórhallur ræddi þetta í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun í minntist á ummæli Jón Dags Þorsteinssonar sem sagði að landsliðið „hlustaði ekki á trúða úti í bæ.“
„Auðvitað er pirrandi að ná ekki einum sigri. Það vantaði ekki mikið upp á hjá okkur. Við þurfum að fá litlu atriðin með okkur í þessu. Það veit enginn hvort boltinn var inni eða ekki í dag og svoleiðis hlutir mega fara að detta með okkur. Við getum verið jákvæðir. Þetta eru fyrstu þrír leikirnir hjá okkur þar sem er komin rétt mynd á liðið eftir allar breytingarnar. Við horfum fram á veginn, erum jákvæðir og hlustum ekki á þessa trúða út í bæ,“ sagði Jón Dagur við mbl.is eftir janftefli Íslands gegn Ísrael fyrr í vikunni.
„Leikmenn eru komnir í slag við fólkið í landinu. Það eru ekki bara fjölmiðlamenn sem eru að gagnrýna, en það er ekki verið að gagnrýna leikmenn heldur þjálfarann,“ sagði Þórhallur.
„Jón Dagur kallaði fólkið sem er að gagnrýna hann trúða. Það er bara þjóðin. Hvernig ætlið þið að fá fólk til að styðja ykkur ef þið kallið það trúða?“
„Menn verða að vanda sig þegar þeir fara í viðtöl,“ sagði Þórhallur að lokum.