Enska úrvalsdeildin segir það ekki satt að fyrsta mótherja Englandsmeistara Manchester City á næstu leiktíð hafi verið lekið.
Opinber aðgangur úrvalsdeildarinnar skrifaði nafn Bournemouth og setti mynd af stundarglasi undir færslu Man City þar sem félagið tilkynnti komu Erling Braut Haaland frá Dortmund fyrir 51 milljón punda. Færslu deildarinnar var síðar eytt.
Flestir gerðu því ráð fyrir að þarna hafi deildin einfaldlega verið að tilkynna það að Haaland myndi mæta Bournemouth í fyrsta leik.
Það var þó ekki svo. Útskýringin á þessu máli er að sá sem sér um samfélagsmiðla ensku úrvalsdeildarinnar ætlaði að svara Bournemouth undir annari færslu, með mynd af stundarglasi. Það var færsla þar sem Bournemouth skrifaði: „Góðan dag, leikjadagskrá kemur út í þessari viku.“
Bournemouth er nýliði í ensku úrvalsdeildinni. Liðið lék síðast í henni tímabilið 2019-2020.
Leikjadagskrá ensku úrvalsdeildarinnar kemur út í fyrramálið.