Gareth Bale, stjarna Wales, hefur skotið föstum skotum á fjölmiðla sem eru duglegir að fjalla um hans líf síðan hann samdi við Real Madrid árið 2013.
Bale hefur þurft að glíma við ansi mörg meiðsli síðan hann samdi á Spáni en meiðslin eru færri en margir halda að hans sögn.
Þá er einnig talað um að Bale elski golf meira en fótbolta en hann þvertekur fyrir það og segist spila lítið af golfi.
Bale er í leit að nýju félagi þessa dagana en hann verður að vera í standi er Wales spilar á HM í Katar í lok árs.
,,Ég hef verið til taks í mörgum leikjum á Spáni en stundum ertu ekki valinn og fólk gerir ráð fyrir að þú sért meiddur,“ sagði Bale.
,,Fólk heldur að ég spili mikið golf en það er ekki rétt. Fólk heldur að ég sé mikið meiddur en það er ekki rétt.“
,,Vandamálið er að fólk trúir því sem það les í blöðunum og það býr til þessa mynd sem virðist alltaf vera í gangi.“