Enska úrvalsdeildin virðist óvart hafa lekið því út að fyrsti leikur Englandsmeistara Manchester City á næstu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni verði gegn Bournemouth.
Félagaskipti Erling Braut Haaland til City voru formlega staðfest í dag. Kemur hann frá Dortmund fyrir um 60 milljónir evra vegna klásúlu sem var í samningi Norðmannsins.
Undir tilkynningu Man City á Twitter setti reikningur ensku úrvalsdeildarinnar inn athugasemd þar sem stóð „Bournemouth“ og því fylgdi stundarglas. Færslunni hefur nú verið eytt.
Á þetta að gefa til kynna að fyrsti leikur Man City á nýrri leiktíð verði gegn Bournemouth, sem er að koma upp í ensku úrvalsdeildina á ný eftir að hafa tryggt sig upp úr B-deildinni á nýafstöðnu tímabili.