Ísland og Ísrael mættust í kvöld í B-deild Þjóðadeildar UEFA á Laugardalsvelli í leik sem lauk með 2-2 jafntefli. Framhaldið í riðlinum er því ekki aðeins í höndum íslenska liðsins sem bíður enn eftir sínum fyrsta sigri í Þjóðadeildinni.
Íslenska liðið byrjaði leikinn mun betur og á 9. mínútu blasti kunnugleg sjón stuðningsmönnum íslenska liðsins. Langt innkast inn á teiginn frá Herði Björgvini, boltanum flikkað áfram af Daníel Leó á Jón Dag Þorsteinsson sem átti laglegan skalla í netið. Staðan orðin 1-0 Íslandi í vil.
Leikmenn íslenska liðsins héldu áfram að þjarma að þeim ísraelsku en það voru hins vegar gestirnir sem náðu að jafna metin á 35. mínútu með sjálfsmarki frá Daníel Leó Grétarssyni. Þvert gegn gangi leiksins.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik.
Ísraelar mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og höfðu yfirhöndina en það var hins vegar íslenska liðið sem náði að komast yfir með marki frá Þóri Jóhanni Helgasyni á 60. mínútu.
Það tók gestina hins vegar ekki langan tíma að jafna leikinn á ný. Það gerði Dor Peretz með skalla á 65. mínútu sem Rúnar Alex varði, atvikið var skoðað í VAR-sjánni og niðurstaðan þar var að boltinn hafi verið kominn inn fyrir línuna þegar að Rúnar varði boltann.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum sem lauk með 2-2 jafntefli. Ísland er í 2. sæti með þrjú stig og þarf sigur gegn Albaníu á útivelli í lokaumferðinni og treysta á að Ísraelar misstígi sig til þess að eiga möguleika á efsta sætinu.