Ísland og Ísrael mættust í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvelli í kvöld. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli og hér verður farið yfir frammistöðu leikmanna Íslands í leiknum.
Ísland er í 2. sæti með þrjú stig og þarf sigur gegn Albaníu á útivelli í lokaumferðinni og treysta á að Ísraelar misstígi sig til þess að eiga möguleika á efsta sætinu.
Rúnar Alex Rúnarsson -6
Var öruggur í sínum aðgerðum og vart hægt að saka hann um mörkin sem Ísland fékk á sig. Fínn leikur hjá Rúnari.
Alfons Sampsted – 5
Mér fannst Alfons byrja vel en átti síðan í vandræðum með vinstri kantara Ísraela. Hefði að sama skapi viljað fá meira presence frá honum í seinna jöfnunarmarki Ísraela þar sem leikmaður gestanna vann mikilvægt einvígi.
Daníel Leó Grétarsson – 6
Kemst nokkuð vel frá leiknum varnarlega og þá átti hann mikilvæga snertingu í fyrsta marki Íslands þar sem að hann fleytir innkasti Harðar á Jón Dag. Var óheppinn í fyrra marki Ísraela þegar að hann fékk boltann í sig og þaðan í markið.
Hörður Björgvin Magnússon – 7
Hörður Björgvin átti stórfínan leik í vörn Íslands. Löngu innköstin hans voru að valda Ísraelum vandræðum eins og sást best í fyrsta marki Íslands. Þá var hann öruggur í sínum varnaraðgerðum.
Davíð Kristján Ólafsson – 6,5
Var flottur bróðurhluta leiksins. Lendir í erfiðri stöðu í fyrra markinu þegar Ísraela ná yfirtölu á hann, hefði þurft aðstoð þar. Davíð hefur fengið stórt hlutverk í þessu verkefni og komist ágætlega frá því.
Birkir Bjarnason – 5
Tíðindalítill leikur hjá Birki sem var tekinn af velli á 78. mínútu.
Þórir Jóhann Helgason – 7
Var líflegur á miðjunni og gerði vel í markinu sem hann skoraði, hnitmiðað skot. Lagði á sig vinnuna og lét finna fyrir sér.
Hákon Arnar Haraldsson- 8
Maður skilur vel afhverju Hákon Arnar er valinn í A-landsliðið á þessum tímapunkti. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann yfir miklum gæðum að skipa og sýndi það í leiknum. Gríðarleg vinnusemi hjá þessum efnilega leikmanni sem á svo sannarlega heima í íslenska landsliðinu.
Arnór Sigurðsson – 8
Spilaði af sjálfstrausti og Arnór Sigurðsson fullur af sjálfstrausti er sjón sem við viljum sjá oftar. Var sífellt ógnandi og með góð hlaup. Á síðan stóran þátt í öðru marki Íslands þar sem barátta hans skapaði gott tækifæri fyrir Þóri Jóhann sem þakkaði pent fyrir sig.
Jón Dagur Þorsteinsson – 6,5
Á fyrsta markið hjá Íslendingum og föst leikatriði skapaðist hætta úr í fyrri hálfleik en annars höfum við séð þennan hæfileikaríka leikmann ferskari með íslenska landsliðinu.
Andri Lucas Guðjohnsen – 5
Ágætis leikur hjá Andra Lucasi sem fékk úr litlu að moða,reyndi hvað hann gat. Var tekinn af velli á 60. mínútu.
Varamenn:
Ísak Bergmann Jóhannesson
Kom með orku inn í íslenska liðið og lét finna fyrir sér á miðjunni.
Sveinn Aron Guðjohnsen
Kom inn fyrir bróður sinn á 60. mínútu en hafði lítil áhrif á leikinn.
Aðrir varamenn spiluðu of lítið til þess að geta fengið einkunn.