Byrjunarlið Íslands fyrir leikinn mikilvæga gegn Ísrael í Þjóðadeild UEFA hefur verið opinberað. Eins og ætla mátti gerir Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins margar breytingar frá æfingaleiknum gegn San Marínó á dögunum.
🇮🇸 Byrjunarliðið gegn Ísrael!
🕰 Leikurinn hefst kl. 18:45 og miðasala í fullum gangi á https://t.co/iwyH4UEb7x!
👇 Our starting lineup against Israel in the UEFA Nations League.#fyririsland pic.twitter.com/zD4tJFieUI
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) June 13, 2022
Hákon Arnar Haraldsson byrjar sinn fyrsta A-landsleik á Laugardalsvelli í kvöld og þá er Andra Lucasi Guðjohnsen treyst fyrir því að leiða sóknarleik Íslands.
Leikurinn hefur mikla þýðingu fyrir íslenska landsliðið sem berst við Albaníu og Ísrael um toppsæti síns riðils í B-deild Þjóðadeildinni. Toppsæti riðilsins veitir sæti í úrslitakeppni um laust sæti í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu árið 2024.
Þrjú af þeim 24 sætum sem í boði eru á Evrópumótinu í knattspyrnu verða ákvörðuð í umræddri úrslitakeppni þar sem sigurvegarar hvers riðils í hverri deild munu etja kappi sín á milli. Þannig myndi eitt lið úr hverri deild geta tryggt sér sæti á EM í gegnum úrslitakeppnina.
Ísland er sem stendur í 2. sæti síns riðils, tveimur stigum á eftir toppliði Ísrael sem er með fjögur stig. Í þriðja sæti sitja síðan Albanir með 1 stig. Það er því allt opið í riðli Íslands. Toppsætið veitir þáttökurétt í A-deildinni á næsta ári og að sama skapi möguleika á sæti í lokakeppni EM í gegnum úrslitakeppnina.