Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi sparkspekingur, telur að liðið þurfi að styrkja fjórar stöður fyrir næstu leiktíð.
Erik ten Hag er nú tekinn við stjórnartaumunum á Old Trafford og verða breytingar gerðar á leikmannahópnum í sumar.
Neville telur að Man Utd þurfi á miðjumanni, framherja, vængmanni og bakverði að halda til að búa til keppnishæft lið.
Það má búast við að fleiri leikmenn séu á förum þegar glugginn opnar en Paul Pogba, Jesse Lingard, Nemanja Matic og Juan Mata hafa allir kvatt félagið á frjálsri sölu.
,,Manchester United þarf nýja miðjumenn og þurfa einnig framherja. Ég veit að Cristiano Ronaldo verður líklega áfram og hann stendur sig alltaf vel en þeir þurfa hreinræktaðan framherja,“ sagði Neville.
,,Ég tel að þeir þurfi einnig að fá inn vængmann, bara til að auka breiddina og bakverðir eru gríðarlega mikilvægir í nútíma fótbolta. Það eru fjórir bakverðir þarna og það verður áhugavert að sjá hverjir verða í uppáhaldi.“