Varnarmaðurinn Cameron Carter-Vickers hefur skrifað undir samning við lið Celtic í skosku úrvalsdeildinni.
Þetta staðfestu skosku meistararnir í gær en Carter-Vickers gerir fjögurra ára samning við félagið.
Um er að ræða 24 ára gamlan miðvörð sem hefur spilað með Tottenham frá árinu 2009 en tækifærin voru fá.
Bandaríkjamaðurinn spilaði aldrei deildarleik og var sjö sinnum lánaður annað með mismunandi árangri.
Hann var lánaður til Celtic á síðustu leiktíð og stóð sig vel og ákvað félagið því að semja endanlega.
Celtic borgar tíu milljónir punda fyrir Carter-Vickers sem á að baki níu landsleiki fyrir Bandaríkin.