Fjórir leikir voru spilaðir í A og B-deild Þjóðadeildar UEFA í kvöld. Belgía vann stórsigur gegn Pólverjum á meðan Holland vann útisigur á Wales. Úkraína og Skotland unnu einnig sigra.
Belgía tók Pólland í kennslustund á King Baudouin-vellinum. Robert Lewnadowski kom Pólverjum í forystu á 28. mínútu en Axel Witsel jafnaði fyrir Belga á lokamínútum fyrri hálfleiks.
Belgía skoraði fimm mörk í síðari hálfleiknum. Kevin De Bruyne, Leandro Trossard, Leander Dendoncker og Lois Openda komust allir á blað. Trossard, leikmaður Brighton, skoraði tvö mörk eftir að hafa komið inná sem varamaður á 66. mínútu.
Holland vann þá dramatískan útisigur á Wales. Rhys Norrington Davies virtist vera að tryggja Wales eitt stig þegar hann jafnaði metin á annarri mínútu uppbótartíma eftir að Teun Koopmeiners hafði komið Hollendingum yfir á upphafsmínútum síðari hálfleiks.
Wout Weghorst tók sig til og skoraði sigurmark Hollands á fjórðu mínútu uppbótartíma, tveimur mínútum eftir jöfnunarmark Wales. Holland er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir í riðli 4 í A-deild. Wales er stigalaust á botninum.
Þá vann Úkraína 1-0 sigur gegn Írlandi á útivelli. Viktor Tsygankov kom inn á sem varamaður í hálfleik og skoraði eina mark leiksins mínútu síðar. Skotar unnu 2-0 sigur gegn Armenum. Anthony Ralston og Scott Mckenna gerðu mörk Skota en þau komu bæði í fyrri hálfleik.