Robin van Persie fyrrum framherji Manchester United hafnaði því að vera í starfsliði Erik ten Hag sem er nýr stjóri félagsins. Þetta staðfestir hann við hollenska miðla.
Van Persie er að þjálfa í unglingaliðum Feyenoord og vill áfram búa í Hollandi vegna fjölskyldunnar.
„Sonur minn og dóttir eru mikilvæg núna. Þau hafa fundið ástríðu sína,“ sagði Van Persie.
„Dina er að gera frábæra hluti í hestmannesku, hún er heilluð af því. Shaqueel er á fullu í fótboltanum. EIginkona mín er að nota sína hæfileika til að búa til skemmtileg verkefni. Við njótum lífsins saman.“
Fjölskyldan hafði það ekki í sér að flytja á nýjan leik. „Í London þegar ég lék með Arsenal þá fluttum við fimm sinnum, svo vorum við í Manchester og Istanbúl. Við vorum í burtu í fjórtán ár.“
„Við tókum þá ákvöðrun að hugsa um börnin núna.“