Nokkrir íslenskir leikmenn komu við sögu með sínum liðum í norsku og sænsku úrvalsdeildunum í dag.
Í Svíþjóð kom Diljá Ýr Zomers inn á sem varamaður á 60. mínútu og skoraði fjórða mark Hacken í 1-5 sigri gegn Brommapojkarna. Hacken er í öðru sæti deildarinnar með 26 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Rosengard.
Þá var Hlín Eiríksdóttir í byrjunarliði Pitea í 3-1 sigri gegn Umea. Pitea er í áttunda sæti deildarinnar með 17 stig.
Loks var Íslendingaslagur þegar Kristianstad tók á móti Örebro. Berglind Rós Ágústsdóttir lék allan leikinn með síðarnefnda liðinu og kom Emilía Óskarsdóttir inn á sem varamaður fyrir það fyrrnefnda undir lok leiks. Elísabet Gunnarsdóttir er auðvitað þjálfari Kristianstad. Leiknum lauk 3-0 fyrir Kristianstad sem er í fjórða sæti deildarinnar með 24 stig. Örebro er í því tíunda með 15 stig.
Í Noregi var Svava Rós Guðmundsdóttir í byrjunarliði Brann í 1-0 sigri gegn Valarenga. Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom inn á fyrir hana þegar rúmur hálftími lifði leiks. Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn með tapliðinu. Brann er á toppi deildarinnar með 37 stig, átta stigum á undan Valarenga sem er í öðru sæti.
Selma Sól Magnúsdóttir var þá í byrjunarliði og lék rúman klukkutíma í 2-4 sigri Rosenborg á Arna-Björnar. Hún lagði upp fjórða mark liðsins. Rosenborg er í Þriðja sæti með 29 stig.