„Það voru kaflar í leiknum sem við viljum að einkenni Ísland, þar sem að við verjum svæðin okkar vel og refsum þegar við getum refsað. Ef við getum fært það yfir á 90 mínútur þá er það frábært,“ sagði Alfons Sampsted, hægri bakvörður, um frammistöðu Íslands gegn Ísrael í 2-2 jafntefli liðanna í Þjóðadeildinni á fimmtudaginn.
Alfons átti sök í fyrsta markinu sem Ísland fékk á sig og var ósáttur með sjálfan sig. „Ef ég fengi tækifæri til að gera þetta aftur myndi ég taka eitt skref til hægri og hann gæti þá ekki fengið að hlaupa upp kantinn óáreittur,“ sagði Alfons, leikmaður Bodö/Glimt í Noregi.
„Maður gerir mistök. Maður lærir af þeim. Það gerist ekki aftur,“ bætti landsliðsmaðurinn við og sagðist bjartsýnn á næstu leiki íslenska liðsins.
„Núna eru byrjaðir að koma kaflar í leikina okkar þar sem við lítum út eins og við viljum líta út. Næsta skref er að lengja þessa kafla og minnka slæmu kaflana. Tilfinningin er sú að við séum á réttri leið en við þurfum að halda áfram að sýna það.“ sagði Alfons og bætti við að hann vonaðist til að sjá sem flesta á Laugardalsvellinum á mánudaginn þegar Ísland mætir Albönum.