Yfir átta þúsund miðar hafa selst á toppslag Våleranga og Brann í norsku efstu deild kvenna sem fram fer á morgun.
Íslensku landsliðskonurnar Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir verða að öllum líkindum með í leiknum en Berglind spilar með Brann og Ingibjörg spilar með Våleranga. Svava Rós Guðmundsdóttir er einnig á mála hjá Brann en hún er að glíma við meiðsli.
Brann situr á toppi deildarinnar með 34 stig en liðið hefur unnið ellefu leiki og gert eitt jafntefli í fyrstu tólf leikjum sínum á tímabilinu. Ingibjörg og stöllur í Våleranga fylgja fast á eftir með 29 stig og geta saxað á forskot Brann með sigri á morgun. Brann á þó leik til góða.
Leikurinn fer fram á Brann Stadion vellinum klukkan 14:00 að íslenskum tíma. Áhorfendametið á leik í norsku efstu deild kvenna var áður rúmlega 3.500 manns en það verður slegið og gott betur á morgun.