Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, bað í dag stuðningsmenn Liverpool og Real Madrid afsökunar vegna atburða sem áttu sér stað fyrir utan Stade de France leikvanginn í París fyrir úrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu þann 28. maí síðastliðinn.
Stuðningsmenn Liverpool lýstu ósæmilegum afskiptum lögreglu og vallarstarfsmanna fyrir leik en stuðningsmenn voru meðal annars beittir táragasi. Real Madrid hefur heimtað svör vegna „fjölda óheppilegra atvika“ en úrslitaleiknum var frestað um 35 mínútur vegna atgangsins fyrir utan völlinn.
„Það á enginn fótboltaáhangandi að vera settur í þessar aðstæður og þetta má ekki gerast aftur,“ segir í yfirlýsingu frá UEFA á heimasíðu sambandsins.
„UEFA vill biðja alla stuðningsmenn innilegrar afsökunar sem lentu í eða urðu vitni að átakanlegum og óhugnanlegum atburðum fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni á Stade de France vellinum í París 28. maí 2022 á kvöldi sem átti að vera haldið til fagnaðar fótbolta evrópskra félagsliða.“