Þjóðadeildin heldur áfram að rúlla en tveir stórleikir voru á dagskrá í kvöld þegar Belgar tóku á móti Hollendingum og Danmörk og Frakkland mættust í París.
Tottenham maðurinn Steven Bergwijn kom Hollendingum í forystu á 40. mínútu eftir sendingu frá Frenkie de Jong. Hollendingar skoruðu svo þrjú mörk á fimmtán mínútna kafla í síðari hálfleik. Memphis Depay kom gestunum í 2-0 á 51. mínútu áður en Denzel Dumfries bætti við þriðja markinu ellefu mínútum síðar.
Memphis Depay skoraði annað mark sitt og fjórða mark Hollendinga á 66. mínútu. Michy Batshuayi skoraði sárabótarmark fyrir Belga á þriðju mínútu uppbótartíma og lokatölur 4-1.
Karim Benzema kom Frökkum yfir gegn Dönum á 51. mínútu með glæsilegu marki eftir markalausan fyrri hálfleik. Andreas Cornelius kom inn á sem varamaður á 59. mínútu og jafnaði metin fyrir Dani níu mínútum síðar eftir sendingu frá Pierre-Emile Hojbjerg.
Cornelius tryggði Dönum svo stigin þrjú á 88. mínútu þegar hann hamraði boltann framhjá Hugo Lloris í marki Frakka og lokatölur í París 2-1 sigur Dana.
Þá vann Austurríki óvæntan 3-0 útisigur gegn Króatíu í fyrsta leik Ralf Rangnick sem knattspyrnustjóri austurríska liðsins. Marko Arnatovic, Michael Gregoritsch og Marcel Sabitzer gerðu mörkin í leiknum.
Í öðrum leikjum dagins í Þjóðadeildinni vann Kasakstan 2-0 sigur gegn Azerbaijan. Lettland vann Andorra með þremur mörkum gegn engu. Slóvakía vann 1-0 útsigur gegn Hvíta-Rússlandi og Liechtenstein tapaði 2-0 gegn Moldóvu á heimavelli.