Belgíski framherjinn Romelu Lukaku vill ólmur komast frá Chelsea og aftur til Inter eftir vonbriðgi á Englandi á síðustu leiktíð.
Lukaku gekk til liðs við Chelsea í annað sinn á ferlinum frá Inter síðasta sumar. Þessum 29 ára gamla leikmanni tókst aðeins að skora átta mörk í ensku úrvalsdeildinni og átti ekki fast sæti í liðinu þegar leið á tímabilið.
Samkvæmt frétt Mirror í dag er Lukaku til í að taka á sig mikla launalækkun til að komast aftur til Ítalíu.
Í samningi sínum hjá Inter þénaði Lukaku um 6,4 milljónir punda á ári. Hann þénaði um þremur milljónum punda meira en það eftir skatt hjá Chelsea. Belginn er sagður glaður vilja fara aftur á sömu laun og hann var með hjá Inter, fái hann að fara aftur til ítalska félagsins.
Það er þó eitt sem setur babb í bátinn fyrir Inter. Félagið á í miklum fjárhagserfiðleikum og á ekki efni á að kaupa Lukaku endanlega aftur til sín í sumar. Hann þyrfti að koma á láni. Lukaku á fjögur ár eftir af samningi sínum á Stamford Bridge.