Ísland gerði í kvöld 2-2 jafntefli gegn Ísrael á útivelli í fyrstu umferð B-deildar Þjóðadeildar UEFA. Ísland var yfir lengi vel í leiknum en mark undir lok leiks frá Ísrael sá til þess að liðin skiptu með sér stigunum.
Hér verður farið fyrir frammistöðu leikmanna íslenska landsliðsins í kvöld.
Rúnar Alex Rúnarsson – 6
Ekki hægt að kenna Rúnari um fyrra markið sem Ísland fær á sig og Ísraelar skora af stuttu færi í öðru markinu. Rúnar var annars öruggur í aðgerðum sínum.
Alfons Sampsted – 4
Set stórt spurningarmerki við Alfons í marki Ísraela í fyrri hálfleik . Lét fara illa með sig í aðdraganda þess og þá fannst mér Leidner hafa mjög mikinn tíma út á kanti í aðdraganda annars marksins.
Brynjar Ingi Bjarnason – 4
Tekinn af velli í hálfleik, ábyggilega vegna höggs sem hann fékk í fyrri hálfleik. Átti ekki góðan leik og meðal annars leiddi samskiptaleysi milli hans og Alfonsar að marki Ísraela í fyrri hálfleik. Brynjar gerði sig að minnsta kosti sekan um arfaslakar sendingar undir engri pressu í tvígang og hann var oft á tíðum óöruggur í sínum aðgerðum
Daníel Leó Grétarsson – 5
Svipað og með Brynjar, vottur af óöryggi í varnarleik hans í fyrri hálfleik, skárra í þeim seinni.
Hörður Björgvin Magnússon – 6
Þurfti að leysa tvær mismunandi stöður í leiknum, vinstri bakvörð í fyrri hálfleik og miðvörð í seinni. Hann átti stóran þátt í öðru marki Íslands með stoðsendingu en set spurningarmerki við hans stöðu í varnarlínu Íslands í öðru marki Ísraela
Birkir Bjarnason – 5
Límið á miðjunni en lítið í boltanum. Allt í lagi leikur hjá Birki.
Arnór Sigurðsson – 7
Átti flotta spretti í leiknum og kláraði sitt færi frábærlega þegar að hann kom Íslandi yfir á 53. mínútu. Hefur verið kallað eftir frammistöðu frá honum í íslenska landsliðsbúningnum og Arnór minnti á sig í kvöld með líflegri frammistöðu.
Þórir Jóhann Helgason – 6
Skorar mark og átti stöðuga frammistöðu. Hefði getað bætt við öðru marki ef ekki hefði verið fyrir magnaða markvörslu hjá markverði Ísraela.
Hákon Arnar Haraldsson – 8 (Maður leiksins)
Virkilega flott frumraun Hákons með A-landsliðinu og maður leiksins að mínu mati. Var vinnusamur á miðjunni, lét finna fyrir sér og sýndi á köflum í leiknum mjög góðan leikskilning með flottum sendingum. Flott frumraun á stóra sviðinu með landsliðinu, frammistaða sem vekur vonir og gaman að sjá þennan 19 ára leikmann stíga upp.
Fór meiddur af velli undir lok leiks en vonum að það sé ekkert alvarlegt.
Jón Dagur Þorsteinsson – 7
Flottar spyrnur úr föstum leikatriðum. Vinnusamur, var að sækja aukaspyrnur auk þess að koma sér í góð færi. Á aðdragandann í fyrsta markinu með flottri sendingu og virtist alltaf koma ógn hjá Íslandi þegar hann var með boltann.
Sveinn Aron Guðjohnsen – 4
Einangraður og komst ekki í takt við leikinn, vantaði meira presence að mínu mati.
Varamenn:
Davíð Kristján Ólafsson – 5
Kom inn í vinstri-bakvörðinn í hálfleik gerði lítið og átti mistök undir lok leiks sem urðu næstum því til þess að Ísraelar næðu sigurmarki.
Albert Guðmundsson – 6
Kom inn á 60. mínútu en sást lítið til hans.
Mikael Neville – Spilaði of lítið til að geta gefið einkunn
Stefán Teitur Þórðarsson – Spilaði of lítið til að geta gefið einkunn
Aron Elís Þrándarson – Spilaði of lítið til að geta gefið einkunn