Romelu Lukaku framherji Chelsea vill helst losna frá félaginu í sumar eftir eitt erfitt ár í herbúðum félagsins.
Chelsea keypti Lukaku frá Inter fyrir ári síðan og borgaði félagið 97,5 milljónir punda fyrir framherjann.
Lukaku fann sig ekki og þegar líða tók á tímabilið vildi Thomas Tuchel ekki nota hann í byrjunarliðinu.
Sky á Ítalíu segir að lögfræðingar Lukaku eigi fund með forráðamönnum Inter á næstunni þar sem endurkoma hans verður rædd.
Lukaku steig fram í viðtali í desember og sagði frá því að hann vildi snúa aftur til Inter, þar leið belgíska framherjanum vel.
Líklegt er að Chelsea sé tilbúið að selja Lukaku í sumar en félagið vill fá ansi stóran hluta af kaupverðinu til baka.
Giuseppe Marotta stjórnarformaður Inter segir að félagið sé ekki að flýta sér neitt en viðurkenndi áhuga á endurkomu Lukaku.