Evrópumeistarar Real Madrid eru við það að ná samkomulagi við Monaco um kaup á miðjumanninum Aurelien Tchouameni. Goal segir frá.
Viðræður á milli félagana hafa staðið yfir í margar vikur og er samkomulag nú loks í höfn. Real Madrid vonast til að ganga frá kaupunum á næstu klukkustundum.
Hinn 22 ára gamli Tchouameni hafði einnig verið orðaður við Liverpool og Paris Saint-Germain en sjálfur vildi hann fara til Real Madrid.
Spænska stórveldið mun reiða fram um 100 milljónir evra fyrir Tchouameni.
Þessa stundina er miðjumaðurinn staddur með franska landsliðinu er það undirbýr sig fyrir komandi leiki í Þjóðadeildinni.