Enska knattspyrnufélagið Liverpool biður stuðningsmenn um að fylla út eyðublað á heimasíðu félagsins fyrir ábendingar og athugasemdir varðandi reynslu sína af úrslitaleiknum í Meistaradeild Evrópu á laugardaginn var.
Liverpool hefur kallað eftir rannsókn á skiplagningu úrslitaleiksins á Stade de France leikvangnum í París og þeim vandamálum sem stuðningsmenn þurftu að kljást við en fjölmargir stuðningsmenn fengu ekki aðgang að vellinum þrátt fyrir að hafa keypt sér miða á leikinn.
Þá voru ásakanir í Frakklandi um stóran fjölda falsaðra miða, lögregla beitti táragasi gegn stuðningsmönnum og úrslitaleiknum var frestað um 35 mínútur vegna atgangsins fyrir utan völlinn.
Real Madrid hafði að lokum betur með einu marki gegn engu og hampaði titlinum í fjórtánda sinn í sögu félagsins.
Fram kemur í yfirlýsingu á heimasíðu Liverpool að þeir sem keyptu miða á úrslitaleikinn fá eyðublaðið sent sjálfkrafa á netfangið sitt.