Forráðamenn Manchester City segjast hvergi hættir á félagaskiptamarkaðnum í sumar þrátt fyrir að hafa unnið Englandsmeistaratitilinn í fjórða skipti á fimm árum á nýafstöðnu tímabili.
„Við ætlum að bæta við nokkrum leikmönnum,“ segir Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður City á heimasíðu félagsins. „Við þurfum að styrkja leikmannahópinn á nokkrum sviðum.“
Félagið hefur þegar klófest Norðmanninn unga, Braut Erling Haaland, en hann kemur frá Borussia Dortmund í Þýskalandi þar sem hann skoraði 85 mörk í 88 leikjum. Haaland þykir einn besti framherji heims um þessar mundir.
Julian Alvarez, sem er einnig framherji, kemur til City frá River Plate í sumar en Alvarez þykir gríðarlegt efni.
„Á hverju tímabili fara alltaf einhverjir leikmenn frá félaginu og við þurfum að fríska upp á hópinn,“ bætti Mubarak við. „Við munum kaupa nokkra í viðbót. Við munum reyna að gera það eins fljótt og unnt er en það er ekki fullkomlega í okkar höndum.“
Fernandinho, fyrirliði liðsins, yfirgefur City í sumar. Talið er að félagið hafi augastað á Kalvin Philips, leikmanni Leeds United, en hann verður ekki auðfenginn eftir að Leeds tryggði áframhaldandi veru sína í efstu deild á Englandi á lokadegi síðasta tímabils.