Ari Freyr Skúlasson var í byrjunarliði Norrköping er liðið tók á móti Elfsborg í sænsku úrvalsdeild karla í dag.
Leiknum lauk með 2-2 jafntefli. Norrköping lenti 2-0 undir eftir tæpan 40 mínútna leik en Ari Freyr lagði upp mark sem Christoffer Nyman skoraði stuttu fyrir hálfleik.
Christoffer Nyman var aftur á ferðinni á 76. mínútu þegar hann jafnaði metin í 2-2 og tryggð heimamönnum stig. Ari Freyr lék allan leikinn í vinstri vængbakverðinum en Sveinn Aron Guðjohnsen kom inn á sem varamaður í liði Elfsborg á 83. mínútu. Hákon Rafn Valdimarsson, varamarkvörður Elfsborg, sat allan tímann á bekknum.
Norrköping og Elfsborg sigla lygnan sjó um miðja deild en aðeins eitt stig skilur liðin að í 7. og 9 sæti.
Lærisveinar Milosar Milojevic í Malmö FF unnu 2-0 útisigur gegn Degerfors. Ola Toivonen gerði bæði mörk liðsins í fyrri hálfleik. Malmö er í 5. sæti deildarinnar með 18 stig eftir 11 leiki.