Kvennalið Lyon varð í dag Frakklandsmeistari í fótbolta í fimmtánda sinn í sögu félagsins eftir 1-0 sigur gegn Paris SG. Lyon þurfti aðeins á einu stigi að halda til að tryggja sér titilinn og gerði gott betur.
Catarina Macario skoraði eina mark leiksins á 3. mínútu. Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, er á förum frá félaginu og var því ekki í leikmannahóp liðsins í dag.
Lyon varð Evrópumeistari í síðustu viku með því að leggja Barcelona að velli í úrslitaleiknum, 3-1. Sara Björk var ónotaður varamaður í þeim leik en eins og áður segir yfirgefur hún félagið þegar samningur hennar rennur út í sumar.