Jurgen Klopp er sannfærður um að lærisveinar hans í Liverpool spili til úrslita í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Þetta sagði hann eftir að Real Madrid vann Liverpool með einu marki gegn engu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í París í gær.
„Ég hef það sterklega á tilfinningunni að við mætum hérna aftur. Strákarnir vilja vinna. Við verðum með framúrskarandi hóp á næstu leiktíð,“ sagði Þjóðverjinn.
„Hvar er úrslitaleikurinn á næstu leiktíð? Istanbúl? Bókaðu hótelgistinguna.“
Rúmri viku fyrir úrslitaleikinn var verið að tala um að Liverpool gæti unnið fjórfalt í ár en þá hafði liðið þegar tryggt sér enska deildarbikarinn og enska FA bikarinn og sat í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni, einu stigi á eftir Manchester City.
Það breyttist á sunnudaginn fyrir viku síðan þegar Manchester City tryggði sér fjórða Englandsmeistaratitilinn á fimm árum en draumurinn um þrennuna lifði enn. Sá draumur tók enda í gær. Þrátt fyrir það lýkur Liverpool tímabilinu með því að hafa unnið tvo titla en Klopp segir strákana ekki sátta.
„Það líður engum vel með tímabilið í búningsklefanum eins og staðan er núna,“ sagði Klopp í viðtali á BT Sport. „Við þurfum kannski nokkra klukkutíma til að melta þetta.“
„Við áttum góðan leik, en ekki fullkominn leik. Strákarnir gerðu hvað þeir gátu, sérstaklega 1-0 undir, þá spiluðum eins og við vildum spila í upphafi leiks.“