Landsliðshópurinn var opinberaður í vikunni og var hann skeggræddur í íþróttavikunni með Benna Bó á föstudaginn. Hjörvar Hafliðason, doktor Football og íþróttastjóri Viaplay og Jóhann Már Helgason, íþróttaskríbent og sérfræðingur í þættinum sátu í settinu með Benedikt Bóas.
Arnór Sigurðsson spilaði aðeins fimm prósent af mínútum Venezia í vetur sem er eðlilega ekki mikið og sagði Benedikt að hann skildi lítið í þeirri ákvörðun að hann væri í landsliðinu en ekki Þorleifur Úlfarsson, leikmaður í MLS deildinni til dæmis. Þá hefði Ísak Snær farið með himinskautum að undanförnu í Bestu deildinni.
„Þetta er gamla góða áskriftin af landsliðssæti sem ég er aldrei hrifinn af. Ég tek undir með Ísak Snæ því hvað þarf hann að gera meira til að fá kallið. Hann er búinn að vera pund fyrir pund langbesti leikmaður Bestu deildarinnar og er í langbesta liðinu,“ sagði Jóhann.
Hjörvar sagði að Arnór hefði einfaldlega lent í frystinum á Ítalíu.
„Ég heyrði góða sögu ofan af skaga um daginn. Þegar Nani var nýkominn til Venezia hafi hann verið á einhverju skokki og spurt Arnór hvað væri málið. Af hverju væri hann ekki að spila. Nani trúði því ekki, segir sagan af Skaganum, að Arnór væri ekki að spila.
Þetta var eitthvað skrýtið með hann. Fótboltinn er flókinn og það er allskonar sem getur komið upp en Arnór lendir í því að fara í stóra frystinn. Arnar Þór veit kannski að hann sé góður í fótbolta,“ sagði Hjörvar.
Hann bætti við að Arnór sem fór frábærlega af stað á sínum ferli hefði varla geta sagt nei við CSKA Moskvu. „Auðveldasta svarið hefði verið að hann hefði átt að taka eitt ár í viðbót í Svíþjóð en stundum þarf bara að hoppa.
Það verður samt að segjast að ferill hans, eins og þetta byrjaði vel í Moskvu, þá hefur þetta verið í engum takt við það sem maður vonaðist eftir frá honum. Þegar hann var að skora í Róm og Madríd þá hugsaði maður VÁ.“
Jóhann benti á að Arnór hafi aldrei sprungið út með landsliðinu. „Hann hefur kannski ekki fengið tækifæri til þess, meira að segja þegar hann var á sínum hátindi fyrir nokkrum árum þá hefur hann ekkert sýnt. Ég man ekki eftir í fljótu bragði eftir góðum landsleik með Arnóri.“