Hólmbert Aron Friðjónsson og félagar hans í Lilleström sitja áfram á toppnum í norsku úrvalsdeild karla í fótbolta þrátt fyrir 2-2 jafntefli gegn Tromsö.
Hólmbert var í byrjunarliði Lilleström í dag en fór af velli eftir rúman klukkutíma leik, stuttu eftir að Ifeanyi Mathew jafnaði metin fyrir Lilleström í 1-1 eftir að Eric Bugale Kitolano hafði komið Tromsö yfir undir lok fyrri hálfleiks.
Vetle Winger Dragsnes kom Lilleström í forystu á 72. mínútu en Moses Ebiye bjargaði stigi fyrir Tromsö í uppbótartíma. Lilleström er með 24 stig, tveggja stiga forskot á Molde á toppi deildarinnar eins og áður segir.
Alfons Sampsted og Noregsmeistarar í Bodö/Glimt eru 11 stigum frá toppnum eftir 3-1 tap gegn Molde í dag. Noregsmeistararnir eiga þó leik til góða á toppliðin en liðið er í 8. sæti með 13 stig.
Viðar Örn Kjartansson og Brynjar Ingi Bjarnason voru báðir í byrjunarliði Våleranga sem steinlá fyrir Rosenborg á heimavelli. Viðar Örn byrjaði leikinn í fremstu víglínu en fór af velli á 64. mínútu.
Våleranga er í 11. sæti með 10 stig. Rosenborg er í 6. sæti með 14 stig eftir 9 leiki.