Rúrik Gíslason og Kári Árnason voru sérfræðingar í setti Viaplay yfir úrsltialeik Meistaradeildar Evrópu á milli Liverpool og Real Madrid í kvöld.
Real Madrid fór með 1-0 sigur af hólmi. Vinicius Junior gerði eina markið á 59. mínútu í leik þar sem Liverpool var heilt yfir líklegri aðilinn fram á við. Thibaut Courtois var hins vegar stórkostlegur í marki Real.
Stuðningsmenn Liverpool á Íslandi eru ósjaldan ástríðufullur og barst það í tal í settinu. Rúrik segir að hann fái stundum að heyra það ef hann segir eitthvað neikvætt um lið Liverpool.
„Ef við dirfumst að segja eitthvað neikvætt um Liverpool fáum við bara persónuleg skilaboð á samfélagsmiðlum,“ sagði Rúrik léttur.
„Við erum náttúrulega bara að reyna að vera faglegir. Stundum þarf að gagnrýna hitt og þetta en þá finnum við fyrir því.“