Valur tapaði 1-3 gegn Víkingi Reykjavík í Bestu deild karla í gær. Liðið er með 13 stig í fjórða sæti deildarinnar. Spilamennska liðsins hefur þó alls ekki verið sannfærandi það sem af er leiktíð.
„Það er vond ára yfir þessu. Það er súrt yfir þessu hjá Val á meðan gleðin er við völd í handboltanum og körfuboltanum,“ sagði Hjörvar Hafliðason í hlaðvarpsþætti sínum, Dr. Football, í gærkvöldi.
Jóhann Már Helgason, fyrrum framkvæmdastjóri Vals, var gestur í þættinum og segir hann að starf Heimis Guðjónssonar, þjálfara liðsins, gæti verið í hættu. Valur olli einnig vonbrigðum í deildinni í fyrra, hafnaði í fimmta sæti.
„Auðvitað spilar inn í spilamennskan frá því á árinu áður. Heimir er alveg á nettu gulu spjaldi út af því hvernig síðasta tímabil endaði,“ sagði Jóhann.
„Það er stórleikur framundan. Ef þeir detta út úr bikarnum á móti Blikum er ekki mikið eftir,“ sagði Jóhann en Valur mætir Breiðabliki í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á fimmtudag.