Breiðablik tók á móti Fram í Bestu deild karla í kvöld.
Kristinn Steindórsson kom Blikum yfir á sjöundu mínútu leiksins. Örskömmu síðar fékk liðið svo vítaspyrnu. Kristinn fór á punktinn og tvöfdaldaði forystuna.
Það stefndi í þægilegan dag á skrifstofunni fyrir heimamenn en á 26. mínútu minnkaði Guðmundur Magnússon muninn fyrir Fram.
Eftir rúman hálftíma fékk Breiðablik aðra vítaspyrnu. Kristinn fór á punktinn en í þetta sinn brenndi hann af.
Staðan í hálfleik var 2-1.
Fred Saraiva jafnaði leikinn fyrir Fram eftir tæpan klukkutíma leik. Höskuldur Gunnlaugsson svaraði þó nánast um hæl með marki fyrir Blika. Nánast í næstu sókn jafnaði Tiago hins vegar aftur fyrir Fram.
Þrátt fyrir hetjulega baráttu nýliðanna skoraði Omar Sowe sigurmark Breiðabliks á 87. mínútu. Lokatölur 4-3.
Blikar eru á toppi deildarinnar, enn með fullt hús stiga eftir sjö leiki. Fram er í tíunda sæti með fimm stig.