Kvenkyns dómarar munu dæma leiki á HM í knattspyrnu karla í ár í fyrsta sinn í sögu mótsins.
Stephanie Frappart frá Frakklandi, Salima Mukansanga frá Rúanda og Japaninn Yoshimi Yamashita verða allar með flautuna í Katar síðar á árinu. Þrír kvenkyns aðstoðardómarar verða þeim innan handar.
Í heildina verða 36 dómarar, 69 aðstoðardómarar og 24 myndbandsdómarar að dæma á mótinu.
„Líkt og alltaf notum við hæfasta kostinn í stöðunni og þeir dómarar sem voru valdir eru fulltrúar þeirra bestu í heimi,“ sagði Pierluigi Collina, stjórnarformaður dómaranefndar Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.
„Þetta er lokaskrefið í löngu ferli sem hófst fyrir mörgum árum síðan þegar kvendómarar voru valdir til að dæma karlaleiki á vegum FIFA, bæði í yngri og eldri flokkum. Með þessu leggjum við áherslu á gæði frekar en kyn.“
„Ég vona að í framtíðinni verði val á fyrsta flokks kvendómurum fyrir mikilvæg mót í karlaflokki eðlilegur hlutur og ekki lengur eitthvað fréttnæmt,“ bætti Collina við.