Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, fer frá Lyon þegar samningur hennar rennur út í sumar. Þetta staðfesti hún í samtali við mbl.is í kvöld.
Lyon er með fimm stiga forskot á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir og leikur til úrslita í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið mætir ríkjandi meisturum Barcelona næsta laugardag.
Sara Björk gekk til liðs við Lyon árið 2020 og varð Frakklands- og Evrópumeistari á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Hún er leikjahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi og hefur skorað 22 mörk í 136 leikjum fyrir Íslands hönd.
„Já, þetta er ákveðið mál, ég fer frá Lyon eftir tímabilið, og eins og staðan er í dag er margt sem kemur til greina,“ sagði Sara Björk í samtali við mbl.is í kvöld.
Hún sneri til baka úr barnaeignafríi þann 18. mars síðastliðinn er hún kom inn á sem varamaður í 3-0 sigri Lyon gegn Dijon en hún hafði þá ekki spilað með liðinu í rúmt ár.
Sara Björk var kosin íþróttamaður ársins árið 2018 og aftur árið 2020 og er eina konan sem hefur hlotið nafnbótina í tvígang.