Þrír leikir fóru fram í 4. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Taphringa KR hélt áfram er liðið tapaði stórt gegn Breiðablik í Vesturbænum.
Mörk frá Alexöndru Jóhannsdóttur og Hildi Antonsdóttur sáu til þess að gestirnir leiddu 2-0 í hálfleik. Heiðdís María Lillýardóttir skoraði þriðja mark Blika á 53. mínútu og Karen María Sigurgeirsdóttir bætti við fjórða markinu 13 mínútum fyrir leikslok og þar við sat.
KR hefur nú tapað fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu. Breiðablik er hins vegar með 9 stig eftir fjóra leiki.
KR 0 – 4 Breiðablik
0-1 Alexandra Jóhannsdóttir (‘5)
0-2 Hildur Antonsdóttir (’33)
0-3 Heiðdís Lillýardóttir (’53)
0-4 Karen María Sigurgeirsdóttir (’77)
Íslandsmeistarar Vals sóttu þrjú stig í Garðabæ með 2-0 sigri á Stjörnunni. Mist Edvarsdóttir og Arna Sif Ásgeirsdóttir skoruðu mörk Valskvenna í sitthvorum hálfleiknum. Stjarnan hefur aðeins unnið leik af fjórum og er með fjögur stig. Valur er með 9 stig eftir fjóra leiki.
Stjarnan 0 – 2 Valur
0-1 Mist Edvardsdóttir (’24)
0-2 Arna Sif Ásgrímsdóttir (’56)
Þá vann Afturelding 2-1 útisigur á Keflavík. Aníta Lind Daníelsdóttir kom heimakonum yfir úr vítaspyrnu á 14. mínútu en Sólveig Jóhannesdóttir jafnaði fyrir Aftureldingu á 36. mínútu. Christina Settles tryggði Aftureldingu fyrsta sigur liðsins á tímabilinu með marki stuttu fyrir leikhlé. Keflavík er með 6 stig eftir fjóra leiki.
Keflavík 1 – 2 Afturelding
1-0 Anita Lind Daníelsdóttir (’14, víti)
1-1 Sólveig Jóhannesdóttir Larsen (’36)
1-2 Christina Clara Settles (’43)