Úkraínumaðurinn Oleksii Bykov, leikmaður KA á láni frá FK Mariupol í heimalandinu, er í viðtali við Fréttablaðið í dag.
Liðið er í samnefndri borg í Úkraínu sem hefur farið hvað verst út úr innrás Rússa sem hófst þann 24. febrúar. Bykov var einmitt í æfingaferð með Mariupol þegar stríðið braust út. „Það skildi enginn hvað var að gerast, það var mjög erfitt að horfa á þetta gerast því þarna eru vinir mínir og fjölskylda,“ sagði Bykov.
Bykov komst að því daginn eftir að hann kom til Íslands að Rússar hefðu sprengt íbúð hans í Maríupol. „Ég brotnaði algjörlega niður, ég missti allt sem ég átti. Ég þakka bara guði fyrir að enginn af ættingjum mínum var í íbúðinni minni.“
Þessi 24 ára gamli leikmaður kann vel við sig á Akureyri. „Lífið á Íslandi er gott, allir í kringum KA hafa séð afar vel um mig eftir að ég kom til landsins,“
Bykov er ekki bjartsýnn á það að snúa aftur til Maríupol á næstunni. „Þessa stundina er ekki hægt að snúa heim, ég get ekki farið aftur til Maríupol, borgin mín er gjöreyðilögð. Hér á Íslandi er ég umkringdur frábæru fólki sem hjálpar mér á þessum erfiðu tímum.“
Lesa má ítarlegt viðtal við Bykov í Fréttablaðinu með því að smella hér.