Chris Brazell er að fara inn í sitt fyrsta tímabil sem aðalþjálfari Gróttu sem tekur á móti Vestra í fyrsta leik sínum í Lengjudeildinni á tímabilinu í dag. Þó svo að Chris sé nýr í starfi aðalþjálfara er hann öllum hnútum kunnugur hjá Gróttu. Hann telur sitt lið geta veitt hvaða liði sem er í Lengjudeildinn alvöru leik og segir mikið hungur í sínum leikmannahóp.
433.is/Fréttablaðið og sjónvarpsstöðin Hringbraut verða heimili Lengjudeildarinnar í sumar. Leikur Gróttu og Vestra verður sýndur í beinni sjónvarpsútsendingu á Hringbraut klukkan 14:00 á morgun.
,,Þetta hefur verið frábært hingað til,“ segir Chris aðspurður um það hvernig fyrstu mánuðir hans í starfi aðalþjálfara Gróttu hafa verið. ,,Ég hef auðvitað verið viðloðandi Gróttu núna í nokkur ár og þó svo að ég sé nýr í starfi aðalþjálfara þá þekki ég umhverfi félagsins mjög vel. Þannig að á margan hátt áttu sér ekki stað miklar breytingar fyrir mig þegar að ég tók að mér þetta starf, ég hélt að mörgu leiti áfram að gera það sem ég var vanur að gera áður.
Chris var aðstoðarþjálfari Ágústs Gylfasonar hjá Gróttu á síðasta tímabili og tók við stjórnartaumunum þegar Ágúst tók við Stjörnunni.
,,Ég var heppinn á síðasta tímabili þegar að ég fékk tækifæri til þess að vinna við hlið Gústa Gylfa, hann hjálpaði mér, studdi dyggilega við bakið á mér og gaf mér stórt tækifæri til þess að læra af sér. Ég bý að þeirri reynslu núna og þökk sé honum sem og öðrum hjá félaginu kom ég mjög vel undirbúinn í þetta starf.“
Grótta hefur misst mikilvæga leikmenn á borð við framherjann stóra og stæðilega Pétur Theódór úr sínum röðum en að sögn Chris var ekki reynt að fylla upp í skarðið sem leikmenn á borð við Pétur skildu eftir sig.
,,Það hefur mikið verið sagt og skrifað um Gróttu og leikmannahóp okkar. Við höfum auðvitað misst frá okkur leikmenn sem voru lykilmenn hjá okkur á síðasta tímabili en lykilatriðið fyrir okkur var ekki að reyna fylla upp í skarð þessara leikmanna. Það kemur enginn í staðinn fyrir leikmann eins og Pétur Theódór, við einblíndum frekar á að byggja liðið upp eins og við höfum gert undanfarin ár með ungum og hungruðum leikmönnum sem vilja spila fyrir Gróttu, leikmenn skilja til hvers er ætlast hjá félaginu og skilja það hvernig við viljum spila.“
Chris segist njóta þess að þjálfa þetta lið. ,,Við erum með unga leikmenn sem eru hungraðir í árangur og eru reiðubúnir til þess að berjast fyrir liðið og mig. Þetta er hæfileikaríkur hópur sem er með mun meiri reynslu en margir gera sér grein fyrir.“
Gróttu er spáð í kringum 9. sæti í Lengjudeildinni í sumar. ,,Við reynum að horfa sem minnst í þessar spár. Ég skil af hverju þær eru settar fram en ég þarf ekki að vera sammála þeim. Ég held að þetta verði mjög jöfn og spennandi deild með ellefu sterkum liðum fyrir utan okkur, liðum sem eru með góða þjálfara og hver einasti leikur mun vera erfiður.
,,Forgangsatriði okkar er að berjast til sigurs í öllum leikjum, ég trúi því að við getum unnið hvaða lið sem er í þessari deild. Ef ég tryði því ekki þá mætti ég fara íhuga að skipta um starfsvettvang.
,,Við þurfum bara að einblína á sjálfa okkur og mæta til leiks í fyrsta leik með spennustigið rétt stillt. Auðvitað er mikil eftirvænting í leikmannahópnum fyrir því að hefja leik í deildinni, við vitum að ef við spilum okkar besta leik þá getum við unnið hvaða lið sem er.“
Grótta tekur á móti Vestra klukkan 14 í dag og Chris býst við erfiðum leik.
,,Þetta verður ekki auðveldur leikur. Vestri er mjög gott lið með góða leikmenn innanborðs og með nýjan þjálfara sem ég tel að sé mjög hungraður í árangur en ef við mætum til leiks og spilum okkar leik þá erum við til alls líklegir,“ segir Chris Brazell, þjálfari Lengjudeildarliðs Gróttu í samtali við 433.is