Breiðablik valtaði yfir ÍA uppi á Akranesi í leik sem lauk fyrir stuttu í Bestu deild karla.
Kristinn Steindórsson kom Blikum yfir strax á þriðju mínútu með marki eftir fyrirgjöf frá Davíð Ingvarssyni.
Hinn sjóðheiti Ísak Snær Þorvaldsson tvöfaldaði forystu gestanna örfáum mínútum síðar. Hann var aftur á ferðinni á 25. mínútu með sitt sjötta mark í sumar. Breiðablik komið í 0-3. Þannig var staðan í hálfleik.
Dagur Dan Þórhallsson skoraði fjórða mark Blika eftir mistök í vörn Skagamanna á 64. mínútu.
Staðan batnaði aðeins fyrir ÍA þegar tæpur stundarfjórðungur lifði leiks. Þá setti Viktor Örn Margeirsson boltann í eigið net.
Anton Logi Lúðvíksson innsiglaði hins vegar 1-5 sigur Blika með flottu marki seint í leiknum.
Breiðablik er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki. ÍA er með 5 stig.