Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar í Wolfsburg eru nú aðeins einum sigri frá því að landa þýska meistaratitlinum eftir 5-1 sigur á SGS Essen í kvöld.
Gestirnir í Wolfsburg voru komnir í 3-0 forystu eftir rúmlega hálftíma leik. Dominique Bloodworth kom þeim á bragðið með marki úr vítaspyrnu á níundu mínútu en Ewa Pajor og Tabea Waßmuth bættu við mörkum áður en Vivien Endemann minnkaði muninn í 3-1 á 36. mínútu.
Dominique Bloodworth kom Wolfsburg svo í 4-1 á 66. mínútu. Varamaðurinn Sandra Starke skoraði fimmta mark gestanna í uppbótartíma. Sveindís Jane sat allan tímann á varamannabekknum.
Sveindís lék sinn fyrsta leik fyrir Wolfsburg í lok janúar á þessu ári og skoraði tvö mörk gegn Köln þann 11. mars síðastliðinn. Hún hefur verið fastamaður í liðinu og byrjaði meðal annars báða leikina gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Wolfsburg getur tryggt sér titilinn með sigri á botnliði Carl Zeiss Jenna á sunnudag. CZJ hefur aðeins unnið einn leik á tímabilinu en liðið er með fimm stig eftir 20 leiki.