Hólmbert Aron Friðjónsson var í banastuði með Lilleström er liðið sótti Eidsvold heim í fyrstu umferð norsku bikarkeppninnar í fótbolta í kvöld.
Gestirnir frá Lilleström fóru með 7-0 sigur af hólmi og skoraði Hólmbert þrennu í síðari hálfleik. Hólmbert lék allan leikinn í fremstu víglínu. Hann hefur skorað tvö mörk í fjórum deildarleikjum með Lilleström það sem af er leiktíðar auk þriggja marka í bikarleiknum í kvöld.
Selma Sól Magnúsdóttir var í byrjunarliði Rosenborg er liðið vann 1-0 sigur á Stabæk í norsku úrvalsdeild kvenna í kvöld. Synne Amdahl Brønstad skoraði eina mark leiksins á 72. mínútu.
Rosenborg er í þriðja sæti norsku deildarinnar með 18 stig eftir átta leiki, þrem stigum á eftir Íslendingaliðum Brann og Våleranga sem eiga leiki til góða.