Tveimur leikum var að ljúka í 2. umferð Bestu deildar kvenna rétt í þessu. Stjörnukonur fengu KR í heimsókn og Keflavík tók á móti Blikum.
Algjör einstefna var í fyrri hálfleik Stjörnunnar og KR þar sem Stjörnukonur réðu ríkjum og komust í 2-0 forystu eftir níu mínútna leik með mörkum frá Katrínu Ásbjörnsdóttur og Gyðu Kristínu Gunnarsdóttur.
Alma Mathiesen kom Garðbæingum í 3-0 áður en Ísabella Sara Tryggvadóttir minnkaði muninn fyrir KR rétt undir lok fyrri hálfleiks. Arna Dís Arnþórsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir komu Stjörnunni í 5-1 á upphafsmínútum síðari hálfleiks og þar við sat.
Stjarnan er með fjögur stig eftir tvo leiki i Bestu deildinni en KR er stigalaust eftir tvo tapleiki.
Amelía Rún Fjeldsted reyndist hetja Keflavíkur gegn Blikum en hún skoraði eina mark leiksins á 33. mínútu í 1-0 sigri.
Blikar sóttu stíft í síðari hálfleik og Samantha Murphy átti stórleik í marki Keflvíkinga. Breiðablik fékk dæmda vítaspyrnu í uppbótartíma. Natasha Moraa Anasi fór á punktinn en Murphy kórónaði frábæra frammistöðu sína í kvöld með því að verja frá henni.
Keflvíkingar eru nú með fullt hús stiga eftir tvær umferðir. Breiðablik er áfram með þrjú stig eftir tapið í kvöld.
Stjarnan 5 – 1 KR
1-0 Katrín Ásbjörnsdóttir (‘4)
2-0 Gyða Kristín Gunnarsdóttir (‘9)
3-0 Alma Mathiesen (’38)
3-1 Ísabella Sara Tryggvadóttir (’44)
4-1 Arna Dís Arnþórsdóttir (’48)
5-1 Jasmín Erla Ingadóttir (’52)
Keflavík 1 – 0 Breiðablik
1-0 Amelía Rún Fjeldsted (’33)