Villarreal tekur á móti Liverpool annað kvöld í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Fyrri leiknum lauk með 2-0 sigri Liverpool og á morgun ræðst hvort liðið tryggir sér farseðilinn í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Unai Emery, þjálfari Villarreal, sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að liðið þyrfti að spila hinn fullkomna leik til að slá Liverpool úr leik.
„Við þurfum að spila hinn fullkomna leik,“ sagði Emery með bros á vör.
„Við þurfum að spila mjög vel gegn þeim, eitthvað sem enginn gerir. Liverpool er besta lið í heimi og þeir eru með mikið sjálfstraust.“
Þá kallaði Emery eftir því að stuðningsmenn liðsins nái að búa til alvöru stemningu og líkja eftir stemningunni sem myndaðist á Anfield í fyrri leik liðanna.