Leikmenn Manchester United munu labba hringinn í kringum völlinn og þakka stuðningsmönnum fyrir tímabilið eftir leikinn gegn Brentford í kvöld eins og hefð er fyrir í lok tímabils.
Manchester United á þrjá leiki eftir í ensku úrvalsdeildinni, heima í kvöld á móti Brentford og svo útileiki gegn Brighton og Crystal Palace.
Tímabilið hefur verið mikil vonbrigði fyrir félagið, liðið er sem stendur í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 55 stig, átta stigum á eftir Arsenal í 4. sæti. Arsenal á auk þess leik til góða. Þá er Manchester United dottið úr öllum öðrum keppnum.
Óvíst var á tímabili hvort að leikmenn myndu yfir höfuð ganga hringinn um völlinn eins og hefð er fyrir en samkvæmt frétt Guardian eru margir leikmenn hræddir við að stuðningsmenn muni ekki hinkra og klappa heldur sýna hve ósáttir þeir eru við tímabilið og fara.