Víkingur tók á móti Stjörnunni í ótrúlega skemmtilegum markaleik í Víkinni í Bestu deild karla fyrr í kvöld. Leiknum lauk með 5-4 sigri Stjörnunnar. Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum sáttur eftir leik en fyrir leik hafði hann lofað að leikurinn yrði fjörugur.
„Ég bjóst kannski ekki alveg við þessu en ég var búinn að segja að þetta yrði skemmtilegasti leikur sumarsins og það verður erfitt að toppa þetta. Þvílíka frammistaðan hjá báðum liðum. Það var unun að horfa á þetta,“ sagði Ágúst Gylfason í viðtali við Stöð 2 Sport.
„Við sýndum hugrekki, þor og við þorðum að sækja á Víkingana. Við fórum á þá trekk í trekk og það var það sem skóp sigurinn. Þetta hefði getað lent hvorum megin sem var. Þetta var algjör flugeldasýning.“
Gústi sagðist vera afar ánægður með hópinn og ungu strákana í liðinu.
„Við erum með geggjaðan hóp. Ég skulda Jökli aðstoðarþjálfara út að borða, það er nokkuð ljóst, fyrir frammistöðu ungu strákanna,“ sagði Gústi Gylfa við Stöð 2 Sport.