Telja má líklegt að Jesse Lingard muni spila sinn síðasta leik fyrir Manchester United á Old Trafford í kvöld þegar að liðið mætir Brentford í ensku úrvalsdeildinni. Um er að ræða síðasta heimaleik Manchester United á tímabilinu og samningur Lingards við félagið rennur út í sumar.
Ekkert virðist þokast í viðræðum félagsins og leikmannsins um nýjan samning og því er það talið líklegast að hann muni fara á frjálsri sölu frá Manchester United í sumar.
Samkvæmt frétt ESPN um málefni leikmannsins eru tvö ítölsk stórlið, AC Milan og Juventus, íhuga það að fá kappann til liðs við sig en þá gæti Newcastle United einnig blandað sér í baráttuna.
Lingard átti góða mánuði hjá West Ham United á síðasta tímabili en hjá Manchester United hefur honum ekki tekist að festa sig í sessi í byrjunarliðinu og spilatíminn hefur verið af skornum skammti.
Lingard þarf meiri spilatíma og reynir nú að komast í lið þar sem hann verður reglulegur byrjunarliðsmaður og þá einna helst vegna þeirrar staðreyndar að stutt er í Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og mun leikmaðurinn vilja tryggja sér sæti í enska landsliðshópnum.