Óvíst er hvað Jón Dagur Þorsteinsson landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu gerir í sumar þegar samningur hans við danska liðið AGF er á enda.
AGF hefur boðið Jóni nýjan samning en hann vill róa á önnur mið og helst fara frá Danmörku. Lið þar í landi hafa verið orðuð við hann.
,,Ég býst ekki við því að vera áfram í Danmörku ef ég fer frá AGF. Ég hef ekki verið í sambandi við önnur lið í Danmörku og býst ekki við að vera það. Mér finnst kominn tími til að ég fari annað þó þetta sé búið að vera skemmtilegt. Þetta hefur verið vonbrigðatímabil hjá okkur núna, í mínum draumaheimi hefði ég viljað að tímabilið hefði gengið betur hjá okkur en í mínum draumaheimi býst ég líka við því að yfirgefa AGF.“
Jón Dagur ætlar að skoða möguleika sína á næstu vikum .
,,Ég er ekki búinn að ákveða neitt og hef ekkert verið að stressa mig á þessu. Ég mun taka mér tíma í að velja þetta næsta skref. Mig langar að komast í lið sem spilar meiri fótbolta og hentar mér betur. Þetta hefur verið erfitt sem sóknarmaður í þessu liði.“
Enskur fótbolti er eitthvað sem heillar Jón Dag sem var ungur að árum í herbúðum Fulham en komst ekki inn í aðalliðið á þeim tíma.