Fjarskiptafyrirtækið Three, helsti styrktaraðili enska knattspyrnufélagsins Chelsea, hefur ákveðið að slíta tímabundið samstarfi sínu við félagið.
Ákvörðunin kemur í kjölfar viðskiptaþvingana á hendur Roman Abramovich, eiganda Chelsea.
Bresk stjórnvöld hafa undanfarið beitt viðskiptaþvingunum gegn rússneskum auðkýfingum í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu. Abramovich er sagður hafa átt góð tengsl við Vladimír Pútín, Rússlandsforseta.
Merki Three verður fjarlægt af keppnistreyjum Chelsea sem og annars staðar á heimavelli liðsins.
Óvíst er hvort Three þurfi að halda áfram að greiða Chelsea en ljóst er nú að tekjutapið verður mikið. Þannig má Chelsea ekki selja miða á heimaleiki sína.
Aðeins þeir sem eiga ársmiða geta mætt á völlinn, talið er að Chelsea sé með um 28 þúsund ársmiðahafa og því verða tæplega 14 þúsund auð sæti. Stamford Bridge tekur tæplega 42 þúsund í sæti.
Ensk blöð segja að Chelsea muni með þessu banni tapa 600 þúsund pundum á hverjum heimaleik sem eftir er eða rúmum 100 milljónum íslenskra króna.