Leonardo, yfirmaður knattspyrnumála hjá Paris Saint-Germain segir að félagið eigi ekki að kasta öllu á glæ eftir að liðið datt úr leik í Meistaradeildinni í gær.
Real Madrid tók á móti PSG í 16-liða úrslitum Meistaradeild Evrópu í gær. PSG var með 1-0 forystu frá fyrri leiknum og komst í 2-0 í einvíginu þegar Kylian Mbappe skoraði sex mínútum fyrir loka fyrri hálfleiks.
Þrjú mörk frá Karim Benzema á 17 mínútna kafla í seinni hálfleik fleytti Madrídingum í átta liða úrslit á kostnað PSG og draumur Parísarliðsins um Evrópumeistaratitil fór enn og aftur forgörðum.
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri liðsins, kenndi dómaranum um tap sinna manna í gær. Pochettino hefur verið undir pressu að undanförnu og franski fjölmiðillinn Le Parisien fullyrðir að Argentínumanninum verði vikið úr starfi.
Leonardo segir Pochettino hins vegar enn vera inni í myndinni hjá PSG á þessari leiktíð.
„Við eigum ekki að kasta öllu á glæ,“ sagði hann í samtali við RMC Sport. „Við eigum að reyna að bæta liðið og halda uppi liðsandanum til að spila í Ligue 1 og enda tímabilið vel. Við eigum að standa saman.
„Pochettino er enn inni í myndinni á þessari leiktíð. Nú er ekki góður tími til að leiða hugann að öðru.“