Knattspyrnuhöllin í Hveragerði sprakk í nótt með þeim afleiðingum að hún er líklega ónýt. Mikið óveður hefur verið á landinu frá því í gærkvöldi. Frá þessu er sagt á vef Fréttablaðsins.
Hamar í Hveragerði heldur úti æfingum þar og ljóst er að engar æfingar fara fram þar á næstu dögum.
„Hún sprakk, ég var að fá þessar fréttir fyrir tíu mínútum. Þá voru starfsmenn fyrir utan höllina, ég er að bíða eftir að heyra í bæjarstjórunum. Þetta er mikið tjón, við fyrstu sýn er húsið ónýtt,“ sagði Hermann Kristinn Hreinsson framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar við Fréttablaðið.
Húsið var byggt árið 2012 og er fjölnota íþróttahöll sem hýsir gervigrasvöll, níu holu púttvöll og fjölnota íþróttagólf í fullri stærð. Stærð íþróttahallinnar er um 5000 m² (104 x 48). Íþróttahöllin er upphituð úr tvöföldum dúk sem er borinn uppi af innri loftþrýstingi og loftþrýstingi á milli ytra og innra lags í útveggjum og þaki.