Daði Freyr Arnarsson, markvörður knattspyrnuliðs FH, er farinn í leyfi frá félaginu í kjölfar ásakana í hans garð á samfélagsmiðlum. Nýleg færsla á Twitter þar sem greint er frá samskiptum Daða Freys við 16 ára stúlku hefur vakið gríðarlega athygli og orðið til þess að fleiri sögur um framferði hans hafa sprottið upp. Í færslunni er því haldið fram að Daði Freyr hafi sent eftirfarandi setningu á 16 ára stúlku. „Ert vitlaus“, „Þykjast eins og þú vilt ekki eldri stráka“ og „Ég bý einn, komdu“.
DV óskaði í byrjun vikunnar eftir viðbrögðum frá Knattspyrnudeild FH vegna málsins. Svör hafa ekki borist en nú rétt fyrir hádegi birti félagið yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem fram kemur að markvörðurinn hafi óskað eftir leyfi og ætli að vinna í sínum málum.
„Knattspyrnudeild FH er meðvituð um umræðuna sem hefur skapast um ósæmilega hegðun eins leikmanns félagsins og fordæmir hana. Leikmaðurinn hefur nú, að eigin ósk, beðið um tímabundið leyfi frá æfingum og keppni til að fá ráðrúm til að vinna í sínum málum. Félagið hefur orðið við þeirri beiðni og ætlar að styðja við leikmanninn í þeirri vinnu,“ segir í yfirlýsingunni.
Í skriflegu svari til DV segir Davíð Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, að félagið muni að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
ætla bara skilja þetta eftir hér 🙂
hann er 23 ára ég er 16 ára pic.twitter.com/nEsTahxBVt
— Emma splidt (@emmmjaa) February 7, 2022
Daði Freyr er 23 ára gamall markvörður sem hefur verið á mála hjá FH frá árinu 2016. Hann er með samning við félagið fram til ársins 2023.