fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
433Sport

Arnar fór ítarlega yfir stöðu mála hjá landsliðinu: ,,Ég held að það sé martröð að vera þjálfari í landsliði í dag“

Helgi Fannar Sigurðsson
Þriðjudaginn 7. september 2021 21:48

Arnar Gunnlaugsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnar Gunnlaugsson fór vel yfir stöðu mála hjá íslenska karlalandsliðinu í þeim landsleikjaglugga sem nú stendur yfir í sjónvarpsþættinum 433 á Hringbraut í kvöld. Arnar, sem er þjálfari Víkings í Pepsi Max-deild karla, ræddi við Hörð Snævar Jónsson um frammistöðuna gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu í undankeppni Heimsmeistaramótsins, komandi verkefni gegn Þýskalandi og fleira.

,,Með því lélegra sem maður hefur séð í langan tíma“

Arnari, sem sjálfur á 32 A-landsleiki að baki, þótti frammistaðan í 0-2 tapinu gegn Rúmenum á dögunum ágæt.

,,Fyrri leikurinn á móti Rúmenum var allt í lagi, í ljósi umræðu í undanfara leiksins var erfitt að gera einhverja kröfu um stórleik og 4,5-0 sigur. Þetta var svekkjandi samt tap, svekkjandi að skora ekki en það voru samt frammistöður sem hægt er að byggja ofan á.“

Arnar sagði frammistöðuna gegn Norður-Makedónum lengi vel afar slaka. Þá hafi það ekki verið íslenska liðinu að þakka að komast aftur inn í leikinn. Honum lauk 2-2 eftir að Ísland hafði lent 0-2 undir.

,,Það var bara mjög dapurt. Fyrri hálfleikur var með því lélegra sem maður hefur séð í langan tíma og seinni hálfleikur byrjaði ekkert betur en það. Reyndar, hrós til þjálfaranna fyrir að breyta strax um kerfi í hálfleik og stoppa í holurnar á miðsvæðinu. Þeir gáfu okkur mark og við komumst eiginlega inn í leikinn fyrir röð tilviljanna frekar en hvað við vorum æðislegir. En við sýndum hjarta og karakter í að fylgja því eftir.“

Úr leik Íslands og Norður-Makedóníu. Mynd/Anton Brink

Erfitt að fara í stórar breytingar þegar leikir eru fleiri en æfingar

Arnar telur nafna sinn, Arnar Þór Viðarsson, ekki í öfundsverðri stöðu. Það sé erfitt að vera landsliðsþjálfari í dag vegna leikjaálags. Þá eigi sér nú stað kynslóðaskipti og áherslubreytingar í íslenska landsliðinu.

,,Ég held að það sé martröð að vera þjálfari í landsliði í dag, held að þú fáir fleiri leiki en æfingar. Maður er að velta því fyrir sér hvernig skilaboðum maður á að koma til leikmanna, sérstaklega þegar þú ert að spila annað leikkerfi. Ég veit að þetta hljóma ekki drastískar breytingar að fara úr 4-4-2 í 4-5-1 en þetta eru stórar breytingar og stórar færslubreytingar. Við erum mjög óöryggir með hvernig við ætlum að pressa, við erum mjög opnir á miðjusvæðinu. Uppspilið hefur kannski gengið hvað best þegar við náum tökum á boltanum af því að þetta leikkerfi býður upp á það að við séum opnir og gerum völlinn stóran. En þar inn á milli erum við mjög viðkvæmir þegar við missum boltann líka, viðkvæmir í ‘transition’ varnarlega séð.“

,,Svo kom rosalega góður gluggi í sumar, þar sem mönnum fannst þeir ná að stilla saman strengina sína. En eins og síðasti leikur gefur til kynna er margt verk eftir óunnið en auðvitað ertu að taka mikið af mörgum nýjum leikmönnum inn og svo er kannski balance-ið í liðinu ekki alveg nógu gott, með marga unga stráka og þar fram eftir götunum,“ sagði Arnar. Vísaði hann þarna í góðan æfingaleikjaglugga sem íslenska liðið átti gegn Mexíkó, Færeyjum og Póllandi snemma í sumar.

Arnar Þór Viðarsson. Mynd/Anton Brink

Morgundagurinn kjörinn til að sýna fram á að við séum á einhverri vegferð

Ísland mætir ógnarsterku liði Þýskalands í lokaleik þessa landsleikjaglugga á morgun. Flestir búast við öruggum sigri þeirra þýsku.

,,Margir segja ,,eru þjóðverjarnir að fara að flengja okkur?“ En það er líka hægt að líta á þetta sem gott tækifæri til að snúa bökum saman og sýna fram á það að við séum á leiðinni eitthvað og að þessi Norður-Makedóníu leikur hafi einfaldlega verið slys,“ sagði Arnar um leikinn á morgun.

,,Auðvitað væri gaman að ná í úrslit og þar fram eftir götunum en ég held að við ættum frekar að leyta eftir góðri frammistöðu sem gefur okkur einhverja von um að við séum á einhverri vegferð.“

Eldri leikmenn sýni þeim yngri þolinmæði

Sumir leikmenn íslenska liðsins voru orðnir pirraðir á slæmri frammistöðu í síðasta leik gegn Norður-Makedóníu. Arnar segir eldri leikmenn þurfa að sýna þeim yngri þolinmæði. Þá gætu þjálfararnir þurf að endurskoða leikkerfi sitt svo það henti þeim leikmönnum sem nú eru til taks betur.

,,Það var ákveðinn pirringur í leikmönnum, eldri leikmönnum, þegar hlutirnir voru ekki að ganga upp og þeir vanir að gefa sendingar inn á svæði þar sem Gylfi, Jói eða Kolli voru mættir í og allir skildu hvað um var að vera. Þetta er alveg þolinmæðisverk. Þú býrð ekki til nýtt lið á einni viku með tveimur æfingum.“

,,Ég veit að þeir eru kannski búnir að fastmóta sínar hugmyndir gagnvart 4-5-1 eða 4-1-4-1 en stundum, ef þú sérð að ákveðnir hlutir eru ekki að virka og við erum ekki með leikmenn að mínu mati sem geta spilað þetta kerfi, þarftu að finna kerfið sem hentar þeim leikmönnum sem að þú spilar með í dag.“

Kári Árnason er með reynslumeiri mönnum Íslands.

,,Þarna er þér bara hent út í djúpu laugina“

Ákveðin kynslóðaskipti eiga sér stað í landsliðinu um þessar mundir. Menn þurfa að taka stór skref fljótt.

,,Munurinn, eins og með Víkingi, er að þar færðu kannski 20 æfingaleiki yfir veturinn, þarna er þér bara hent út í djúpu laugina. Þú finnur það alveg að það er ekki tími til að vera í einhverjum ‘goody, goody’ fíling. Þetta eru ekki æfingaleikir lengur þetta er undankeppni HM og það er allt undir, þú gerir ákveðnar kröfur,“ sagði Arnar um þá ungu leikmenn sem eru að koma inn í landsliðið.

Andri Lucas Guðjohnsen gerði jöfnunarmark Íslands í jafnteflinu gegn Norður-Makedóníu. Þetta var hans annar landsleikur og hans fyrsta landsliðsmark. Andri er sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, aðstoðarlandsliðsþjálfara. Arnar er mjög hrifinn af Andra og nefndi hann einnig yngri bróðir hans, Daníel Tristan Guðjohnsen, á nafn.

,,Hann er rosa nía, markið sem að hann gerði, hann er búinn að gera mikið af svona mörkum fyrir Real Madrid, varaliðið,“ sagði Arnar um Andra.

,,Hann var að æfa með okkur líka í Víkingi aðeins, yngri bróðir hans líka, hann er jafnvel efnilegri sá gaur, Daníel Tristan. Holningin á þeim báðum er eiginlega allt öðruvísi en á Eiði og Sveini Aroni. Þeir eru með aðeins léttari vöðva og ekki eins stóran rass, sem reyndar Eiður nýtti mjög vel á sínum ferli. Holningin á þeim er alveg perfect til að skapa góðan fótboltamann og hausinn á þeim virkar í flottu lagi.“

Fengi hann að ráða, myndi Arnar hafa Andra Lucas í byrjunarliðinu gegn Þjóðverjum á morgun.

,,Ég myndi gera það, Viðar kemur að mörgu leyti óvænt inn í hópinn og hefur að mörgu leyti staðið sig vel, sérstaklega taktískt varnarlega séð. Og það sést alveg að hann er ekki í leikæfingu, hann er búinn að vera mikið meiddur, er nýbyrjaður að spila í Noregi. Mér finnst hann bara búinn að standa sig vel.“

,,Það er meðbyr með hans (Andra) vali þannig ég held að enginn yrði ósáttur með að hann yrði valinn á morgun.“

Viðtalið við Arnar Gunnlaugsson í heild sinni má sjá hér fyrir neðan. Ásamt því að ræða landsliðið fór hann einnig yfir Pepsi Max-deildina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Er efstur á óskalista United í janúar

Er efstur á óskalista United í janúar
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

United að takast að losna við Antony?

United að takast að losna við Antony?
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Senda frá sér yfirlýsingu vegna andláts yfir hátíðarnar

Senda frá sér yfirlýsingu vegna andláts yfir hátíðarnar
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Áfall fyrir Arsenal

Áfall fyrir Arsenal
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Robbie Keane að taka að sér áhugavert starf

Robbie Keane að taka að sér áhugavert starf
433Sport
Í gær

Hrafn til liðs við Stjörnuna

Hrafn til liðs við Stjörnuna
433Sport
Í gær

Eiður Smári gáttaður – „Það er ótrú­legt“

Eiður Smári gáttaður – „Það er ótrú­legt“
433Sport
Í gær

KSÍ hvatt til að taka þessa risastóru ákvörðun – „Hætta í þessu drasli og segja þeim að éta það sem úti frýs“

KSÍ hvatt til að taka þessa risastóru ákvörðun – „Hætta í þessu drasli og segja þeim að éta það sem úti frýs“
433Sport
Í gær

Nýliðarnir sóttu mann sem þekkir úrvalsdeildina vel

Nýliðarnir sóttu mann sem þekkir úrvalsdeildina vel