fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
433Sport

KSÍ gæti þurft að greiða Kolbeini miska- og fjártjónsbætur: Neita að biðjast afsökunar

Hörður Snævar Jónsson
Miðvikudaginn 22. september 2021 15:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fram kom í fundargerð Knattspyrnusambands Íslands frá 9. september að erindi hefði borist frá lögmanni Kolbeins Sigþórssonar. Málið varðar þá ákvörðun KSÍ að taka Kolbein Sigþórsson úr landsliðshóp Íslands í lok ágúst.

„Lagt var fram erindi lögmanns fyrir hönd skjólstæðings síns þar sem krafist var að stjórn afturkallaði ákvörðun sína frá dags. 29. ágúst 2021 um að draga skjólstæðing hans úr landsliði. Á fundinn mætti utanaðkomandi lögmaður sem fór yfir drög að svarbréfi. Stjórn KSÍ gaf 1. varaformanni umboð til að ganga frá endanlegu orðalagi svarbréfs fyrir hönd stjórnar með lögmanni KSÍ, sagði í fundargerðinni sem birt var á vef KSÍ í gær.

DV óskaði eftir bréfunum sem lögmaður Kolbeins sendi og svarbréfi KSÍ: og fékk þau afhent frá lögmanni Kolbeins.

„Umbjóðandi minn, Kolbeinn Sigþórsson, hefur falið mér að gæta hagsmuna sinna gagnvart KSÍ vegna þeirra stöðu sem upp er komin í kjölfar ákvörðunar stjórnar sambandsins um að taka hann úr landsliðshópi. Kolbeinn var í hópi þeirra leikmanna sem landsliðsþjálfarar höfðu valið vegna leikja við Rúmeníu, N-Makedóníu og Þýskaland í undankeppni HM. Kolbeinn var á leið til landsins þegar honum var tilkynnt af landsliðsþjálfurum að stjórn KSÍ hefði gripið fram fyrir hendur þeirra og mælt fyrir um að Kolbeinn yrði ekki í landsliðshópnum,“ segir í bréfi sem Hörður Felxi Harðarson ritar til stjórnar KSÍ 7. september.

Málið varðar atvik frá árinu 2017 þegar tvær konur sökuðu Kolbein um ofbeldi. Málið var leyst með sátt snemma árs 2018 þrátt fyrir að Kolbeinn hafi alla tíð neitað sök í málinu.

„Af fjölmiðlaumfjöllun verður ráðið að þessa ákvörðun megi rekja til þess að kona steig fram og gagnrýndi fráfarandi formann fyrir að greina ekki rétt frá atvikum í sjónvarpsviðtali. Vísaði hún þar til þess að formaðurinn, og reyndar fleiri starfsmenn KSÍ, hafi verið upplýstir um atvik sem upp kom á árinu 2017 og tengdist henni. Hélt hún því fram að þar hefði verið um alvarlegt ofbeldis- og kynferðisbrot að ræða. Málinu hefði hins vegar verið lokið á árinu 2018 með sátt. Hún nafngreindi ekki þann leikmann sem í hlut átti og tók fram að hún ætti ekkert sökótt við hann,“ segir í bréfinu sem Hörður skrifar til stjórnar KSÍ.

Hörður segir að full vitneskja hafi verið um málið í herbúðum KSÍ og að sátt hefði náðst í málinu „Fyrir liggur að innan KSÍ hefur verið vitneskja um þetta mál og lok þess allt frá árinu 2018. Þrátt fyrir þá vitneskju hefur Kolbeinn frá þeim tíma endurtekið verið valinn í landsliðið en hann hefur frá árinu 2018 spilað fjölda landsleikja og skorað í þeim 4 mörk. Sú umræða sem spratt í kjölfar sjónvarpsviðtals fráfarandi formanns, og þrýstingur frá utanaðkomandi aðilum, virðist hins vegar hafa orðið til þess að stjórn sambandsins tók þessa afdrifaríku ákvörðun,“ segir Hörður.

Stjórn KSÍ hefði getað kannað rangfærslur:

Hörður segir að í frásögnum Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur og Jóhönnu Jensdóttur séu margvíslegar rangfærslur. „Af fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna daga má sjá að ætlaðir þolendur í þessu máli hafa farið fram með margvíslegar rangfærslur, bæði um eðli ætlaðra brota og um tildrög þess að sátt komst á í málinu. Ljóst er að sannleikurinn um þau atvik er þeim alls ekki hagfelldur. Þetta hefði stjórn KSÍ getað kannað með því einu að leita skýringa eða afstöðu Kolbeins áður en tekin var ákvörðun um að víkja honum úr landsliðinu,“ segir Hörður og upplýsir þar að stjórn KSÍ hafði aldrei samband við Kolbein eftir að hún ákvað að henda honum úr landsliðinu.

Hörður endurtekur svo það sem Kolbeinn Sigþórsson sagði í yfirlýsingu sinni. „Eins og fram kom í yfirlýsingu Kolbeins í fjölmiðlum þá hefur hann aldrei gengist við ofbeldis- eða kynferðisbroti. Hann kannaðist við að hafa brugðist rangt við endurteknu áreiti á skemmtistað. Hann brást við umkvörtunum kvennanna með því að ræða við þær af einlægni og sætta málið. Ekki fór hins vegar á milli mála að hann galt fyrir það að vera þekktur einstaklingur og í viðkvæmri stöðu, bæði gagnvart félagsliði og landsliði. Þrátt fyrir að kröfur kvennanna hafi bæði verið óhóflegar og ósmekklegar, en um þær hefur að hluta til verið fjallað í fjölmiðlum, ákvað hann að verða við þeim og loka málinu. KSÍ var fullkomlega upplýst um efni málsins og þessi málalok.“

Miklar afleiðingar fyrir Kolbein:

Hörður Felix skrifar svo um þá staðreynd að KSÍ hefur verið gagnrýnt fyrir framgang sinn í öðrum málum þar sem landsliðsmenn eru sakaðir um brot. „Ákvörðun stjórnar KSÍ var tekin í tengslum við umræðu um að innan knattspyrnuhreyfingarinnar viðgengist kvenfyrirlitning og orðið „nauðgunarmenning“ hefur endurtekið verið notað í því sambandi. Virðist sem alls kyns sögusagnir séu í gangi um að landsliðsmenn kunni að hafa orðið uppvísir að alvarlegum kynferðisbrotum. Hvað sem líður réttmæti þeirra sögusagna þá tókst stjórn KSÍ að koma því svo fyrir að öll sú umræða um málefni KSÍ hefur verið tengd umbjóðanda mínum, fullkomlega að ósekju,“ skrifar Hörður.

Hann segir að afleiðingarnar fyrir Kolbein séu umtalsverðar og þann 7. september höfðu verið skrifaðar 738 greinar um málið.
„Afleiðingar þessa fyrir umbjóðanda minn eru nú þegar umtalsverðar. Frá því að stjórn KSÍ tók ákvörðun um að víkja Kolbeini úr landsliðshópnum, og spyrða þannig nafn hans saman við ætlaða „nauðgunarmenningu“ innan KSÍ, hefur verið um hann fjallað í 738 greinum í fjölmiðlum um allan heim. Sú umfjöllun er nær alfarið neikvæð enda tengist hún ætlaðri ofbeldismenningu innan KSÍ og umbjóðandi minn sá eini sem nafngreindur er í því sambandi. Á Íslandi eru greinarnar orðnar 194, 131 grein í Bandaríkjunum, 77 í Svíþjóð, 55 í Rúmeníu, 40 í Frakklandi, 30 í Sviss, 30 í Bretlandi, 13 í Portúgal og 13 á Spáni.“

„Samkvæmt alþjóðlegum stöðlum er umfjöllunarvirði þessara greina ekki minna en 4,9 milljónir USD eða um 625 milljónir íslenskra króna. Ljóst er að umbjóðandi minn hefur engin tök á að rétta hlut sinn í þessari umfjöllun og orðsporsskaðinn því gríðarlegur. Þá er rétt að geta þess að fréttum um umbjóðanda minn hefur verið deilt 3500 sinnum á samfélagsmiðlinum Facebook, 794 sinnum á Reddit og 194 sinnum á Twitter nú þegar. Ekki er séð fyrir endann á þessari umfjöllun.“

Trúir því að KSÍ viti að ákvörðunin var röng:

Hörður segir í bréfi sínu til stjórnar KSÍ að Kolbeinn trúi því að stjórn sambandsins viti í dag að ákvörðunin var röng. Félagslið Kolbeins rannsakaði málið og styður framherjann í málinu eftir ítarlega skoðun. Það var ekki vitað þegar Hörður ritaði bréfið þann 7. september.

„Fram hefur komið í fjölmiðlum að umbjóðandi minn hefur ennfremur verið tekinn úr hópi hjá félagsliði sínu, a.m.k. tímabundið. Er sú ákvörðun alfarið byggð á fjölmiðlaumfjöllun um málið hérlendis, og síðar í sænskum fjölmiðlum, í kjölfar þessarar misráðnu ákvörðunar stjórnar KSÍ. Að óbreyttu getur ákvörðunin því haft veruleg áhrif á tekjuöflunarhæfi umbjóðanda míns til framtíðar,“ skrifar Hörður.

„Umbjóðandi minn trúir því að fráfarandi stjórn KSÍ geri sér grein fyrir því að ákvörðun um að víkja honum til hliðar var röng. Umbjóðandi minn veit ekki til þess að sú ákvörðun hans að ganga frá sátt um atvikin, án nokkurrar viðurkenningar á sök, brjóti gegn skrifuðum eða óskrifuðum reglum KSÍ. Þá liggur fyrir að KSÍ var að fullu upplýst um málið og málalok, auk þess sem ætlaðir þolendur hafa frá upphafi lýst því yfir að þeir eigi ekkert sökótt við umbjóðanda minn. Síðast en ekki síst eru þetta einstaklega döpur skilaboð til einstaklings sem er markahæsti leikmaður liðsins frá upphafi og hefur verið boðinn og búinn að nýta starfskrafta sína í þágu landsliðsins, þrátt fyrir erfið meiðsli í gegnum tíðina.“

Áskilur sér rétt til miska- og fjártjónsbóta:

Hörður segir að Kolbeinn áskilji sér rétt til miska- og fjártjónsbóta. „Umbjóðandi minn skorar á stjórn KSÍ að draga fyrri ákvörðun til baka og koma opinberlega á framfæri afsökunarbeiðni til umbjóðanda míns. Að öðrum kosti er ljóst að umbjóðandi minn mun verða fyrir enn frekari skaða og hugsanlega missa tekjuöflunarhæfi sitt að fullu. Mikilvægt er að ákvörðun um þetta efni verði hraðað og komið á framfæri með áberandi hætti í fjölmiðlum.“

Umbjóðandi minn verður óhjákvæmilega að áskilja sér allan rétt til miska- og fjártjónsbóta, ekki síst ef hlutur hans verður ekki réttur hið fyrsta,“ segir Hörður að endingu í bréfi til stjórnar KSÍ.

KSÍ neitar að biðjast afsökunar:

Í skriflegu svari frá Óskari Sigurðssyni, lögmanni LEX sem KSÍ fól að svara fyrir sína hönd, og DV hefur undir höndum, kemur fram að það hafi verið mat stjórnarinnar að það væri hvorki í þágu íslenska landsliðsins né Kolbeins að landsliðsmaðurinn tæki þátt í landsleikjunum.

Þá segir að Óskar að stjórnin fari með æðsta vald í málefnum sambandsins. Engar reglur gilda um viðbrögð við málum sem þessum og því hafi stjórnin haft fullar heimildir til þess að taka umrædda ákvörðun.

Þá bendir Óskar á að leikirnir hafi þegar verið spilaðir og því að sé þýðingarlaust að draga ákvörðun stjórnarinnar til baka. Það verði svo hlutverk nýrrar stjórnar KSÍ að móta reglur um mál sem þessi til framtíðar, í samstarf i við aðra í íþróttahreyfingunni, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og aðra fagaðila. Eitt af verkefnunum verði að móta reglur um hvaða áhrif mál af þessum toga geti hafi á þátttöku í landsliðsverkefnum.

Þá leggur Óskar þunga áherslu á að stjórn KSÍ hafni því að ákvörðunin hafi verið orsök þeirrar umfjöllunar sem mál Kolbeins fékk í samfélaginu og fjölmiðlum. Sú umræða hafi þegar verið farin af stað og stjórnin verið að bregðast við henni.

Þá hafnar Óskar allri ábyrgð KSÍ á stöðu Kolbeins hjá félagsliði sínu, IFK Gautaborg, en úr því máli hefur verið leyst.

Hann bendir ennfremur á að um afar sérstakar og krefjandi aðstæður hafi verið að ræða og mikilvægt hafi verið að bregðast hratt við. Stjórn KSÍ telji ekki neina ástæðu til að draga umrædda ákvörðun til baka eða biðja Kolbein afsökunar á henni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Giggs gæti verið að landa starfi í þjálfun eftir nokkurt hlé – Hæg heimatökin

Giggs gæti verið að landa starfi í þjálfun eftir nokkurt hlé – Hæg heimatökin
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Áhyggjuefni fyrir United – Síðast þegar liðið skoraði svona lítið þá féll það úr deildinni

Áhyggjuefni fyrir United – Síðast þegar liðið skoraði svona lítið þá féll það úr deildinni
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Var 18 ára þegar fertugur Maradona vildi borga fyrir nektarmyndir – Svona er líf hennar í dag

Var 18 ára þegar fertugur Maradona vildi borga fyrir nektarmyndir – Svona er líf hennar í dag
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Forráðamenn Sporting óttast að Amorim reyni að taka þessa fjóra leikmenn með sér

Forráðamenn Sporting óttast að Amorim reyni að taka þessa fjóra leikmenn með sér
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Konate ekki alvarlega meiddur

Konate ekki alvarlega meiddur
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Hlustaðu á Messi frekar en Ballon d’Or

Hlustaðu á Messi frekar en Ballon d’Or
433Sport
Í gær

Birkir tryggði sigurinn á Ítalíu – Jón Daði spilaði sinn fyrsta leik

Birkir tryggði sigurinn á Ítalíu – Jón Daði spilaði sinn fyrsta leik
433Sport
Í gær

Versta byrjun United frá 1986

Versta byrjun United frá 1986